Hart deilt um frammíkall

Enn er deilt í Bandaríkjunum um þingmanninn Joe Wilson, sem hrópaði: Þú lýgur, þegar Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hélt ræðu um heilbrigðismál í Bandaríkjaþingi í síðustu viku. Wilson hefur þegar beðið Obama afsökunar og forsetinn hefur fallist á afsökunarbeiðnina en nú er þess krafist að þingið refsi honum með einhverjum hætti. Wilson neitar að biðjast afsökunar í þingsalnum. 

„Ég ætla ekki að biðjast afsökunar aftur. Ég bað forsetann afsökunar á miðvikudagskvöld," sagði Wilson við Fox sjónvarpsstöðina.

Leiðtogar Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa hótað að víta Wilson ef hann biðst ekki formlega afsökunar úr ræðustól þingsins. Segja þeir að upphlaup hans undir ræðu Obama sé alvarlegt brot á siðareglum stjórnmálamanna.

Talsmaður Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, sagði að þingmenn myndu grípa til aðgerða nú þegar enda hafi Wilson gert mönnum ljóst í viðtalinu við Fox hver hans afstaða væri.

Wilson sem er íhaldsmaður frá Suður-Karólínu, sagði að verið væri að reyna að beina athyglinni frá óvinsælum fyrirætlunum forsetans um breytingar á heilbrigðiskerfinu.

Þingmaðurinn greip fram í fyrir Obama þegar forsetinn lýsti því yfir í ræðunni, að ólöglegir innflytjendur myndu ekki njóta verndar samkvæmt tillögum um breytingar á heilbrigðistryggingakerfinu. 

Obama sagðist á fimmtudag hafa fallist á afsökunarbeiðni Wilsons, sem hefur ekki farið leynt með að hann er andvígur því að réttindi ólöglegra innflytjenda verði aukin.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert