Þúsundir mótmæla heilbrigðistillögum Obama

Tugir þúsunda Bandaríkjamanna tóku í gærkvöldi þátt í mótmælagöngu í Washingtonborg frá Hvíta húsinu að þinghúsinu til að mótmæla tillögum Baracks Obama í heilbrigðismálum.

Obama ávarpaði sjálfur 15 þúsund manna útifund í Minneapolis og sagðist þar ekki myndi hvika frá stefnu sinni. Sagðist hann ekki sætta sig við, að fulltrúar sérhagsmuna notuðu sömu gömlu herbrögðin til að viðhalda óbreyttu ástandi. 

Mótmælendurnir í Washington gagnrýndu að heilbrigðismálatillögur Obama muni leiða til gengdarlausra ríkisútgjalda. Einnig hafi stjórnvöld varið háum upphæðum til að bjarga fjármálafyrirtækjum og bílaframleiðendum frá gjaldþroti. 

Heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum kostar árlega 2,2 billjónir dala á ári eða 16% af vergri landsframleiðslu. Er það mun hærra hlutfall en OECD ríki verja að meðaltali til heilbrigðismála. 

„Ég fæddist frjáls en er skattlagður til dauðs," stóð á einu mótmælaskilti. Á öðru, sem innflytjandi frá Úkraínu hélt á, stóð: „Ég fékk mig fullsaddan af sósíalisma í Sovétríkjunum."

Það voru grasrótarsamtökin Freedomworks, sem skipulögðu mótmælagönguna. Freedomworks berst fyrir lægri sköttum og minni ríkisumsvifum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert