Þrír karlmenn voru í dag dæmdir í Bretlandi í ævilangt fangelsi fyrir að hafa lagt á ráðin um að sprengja upp farþegaflugvélar yfir Atlantshafi. Mennirnir þrír eru allir tæplega þrítugir að aldri.
Abdulla Ahmed Ali, 28 ára, var talinn vera leiðtogi hópsins. Hann á ekki möguleika á reynslulausn fyrr en eftir 40 ár. Assad Sarwar, 29, var dæmdur í að minnsta kosti 36 ára fangelsi og Tanvir Hussain, 28, í 32 ár.
Dómarinn sagði, þegar hann kvað dóminn upp í dag, að markmið mannanna hefði verið að fremja hryðjuverk sem líkja mætti við árásirnar á Bandaríkin árið 2001.
Fram kom við réttarhöldin, að mennirnir höfðu valið úr sjö flug á milli Bretlands og Norður-Ameríku sem ráðast átti á sama daginn. Höfðu mennirnir komist yfir nægilega mikið af efnum til að búa til 20 sprengjur og ætluðu að fara að láta til skarar skríða þegar þeir voru handteknir árið 2006.
Eftir að mennirnir voru handteknir og í ljós kom að þeir ætluðu að taka með sér vökva um borð í flugvélar, sem mátti síðan blanda saman og búa til sprengiefni, varð mikið uppnám í flugheiminum og reglur um hvað farþegar mega taka með sér um borð í flugvélar voru hertar verulega.