Breski lyfjaframleiðandinn GlaxoSmithKline segir, að rannsóknir hafi sýnt að einn skammtur af bóluefni fyrirtækisins gegn svínaflensu veiti sterka ónæmisvörn gegn veirunni, sem veldur sjúkdómnum.
„Niðurstöðurnar sýna að eftir einn skammt veitir bóluefnið sterka óneimisvörn," segir fyrirtækið í yfirlýsingu.
Gert hefur verið ráð fyrir að bólusetja þurfi hvern mann tvisvar, á þremur til fjórum vikum, til að tryggja hámarksónæmi eða vernd gagnvart inflúensunni. Landlæknisembættið á Íslandi segir að í byrjun október verði unnt að byrja að bólusetja landsmenn gegn veikinni.
Kínverska líftæknifyrirtækið Sinovac hefur þegar fengið grænt ljós frá kínverskum stjórnvöldum að framleiða eins skammts bóluefni. Þá sögðu franska fyrirtækið Sanofi-Pasteur og ástralska fyrirtækið CSL í síðustu viku, að rannsóknir hafi sýnt að bóluefni, sem þau eru að framleiða, virðist virka vel eftir einn skammt.