Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, hefur sent frá sér nýtt ávarp, sem hann segir vera til bandarísku þjóðarinnar. Þar segir hann, að stuðningur Bandaríkjanna við Ísraels hafi verið aðalástæða þess að hann lét gera hryðjuverkaárásir á Bandaríkin 11. september 2001.
Að sögn stofnunar, sem fylgist með vefsíðum íslamista, birtist hljóðskrá með ávarpinu á netinu ásamt mynd af bin Laden. Í ávarpinu segir bin Laden að stuðningsmenn Ísraelsmanna í Bandaríkjastjórn hafi hvatt til stríðanna í Írak og Afganistan og fyrirtæki, sem áttu hagsmuna að gæta, róið undir.
„Ef þið hugsið vel um stöðuna þá vitið þið að þrýstihópar stjórna Hvíta húsinu. Það hefði frekar átt að frelsa Hvíta húsið en að berjast til að frelsa Írak eins og Bush fullyrti að væri gert."
Þá segir bin Laden, að Barack Obama, núverandi Bandaríkjaforseti, hafi ekki vald til að breyta gangi stríðanna. Það undirstriki hve forsetinn sé í veikri stöðu, að hann hafi skipað Robert Gates í embætti varnarmálaráðherra en Gates gegndi einnig því embætti í stjórn Georges W. Bush.
Bin Laden hvetur Bandaríkjamenn til að þrýsta á leiðtoga Hvíta hússins að hætta stríðsrekstrinum og hætta að styðja Ísraelsmenn en láta ekki undan „hugmyndafræðilegri hryðjuverkastarfsemi" sem nýíhaldsmenn standi fyrir.
„Ef stríðunum lýkur ekki munum við halda áfram að berjast við ykkur á öllum mögulegum vígstöðvum líkt og við gerðum við Sovétríkin í áratug áður en þau hrundu með hjálp Allah hins almáttuga og urðu aðeins minning," segir bin Laden.