Kosningaspá, sem norska ríkissjónvarpið birti klukkan 19 þegar kjörstöðum var lokað í þingkosningum þar í landi bendir til þess að stjórnarflokkarnir haldi naumum meirihluta á norska Stórþinginu. Samkvæmt spánni fengu stjórnarflokkarnir 85 þingsæti og stjórnarandstaðan 83. Rauða flokknum, sem er lengst til vinstri, er spáð einu þingsæti.
Munurinn er hins vegar meiri í spá, sem TV2 birti á áttunda tímanum. Samkvæmt henni fá stjórnarflokkarnir 87 þingsæti en stjórnarandstaðan 82.
Samkvæmt spá Verdens Gang fá báðar fylkingarnar 84 þingsæti og Rauði flokkurinn fær 1 þingsæti.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, sagði við norska ríkissjónvarpið að spennandi kosninganótt væri framundan en hann sagðist vera ánægður með þessar tölur. Kristin Halvorsen, leiðtogi Sósíalista vinstriflokksins, sagði ekki enn ljóst hvort stjórnarflokkarnir haldi meirihluta en staða flokksins væri góð í ljósi þess að hann væri að ljúka fyrsta kjörtímabili sínu í ríkisstjórn.
Sagði Halvorsen, að ef það yrði niðurstaðan að rauðgræna flokkabandalagið haldi velli væri það kosningabaráttu Sósíaliska vinstriflokksins að þakka, að tekist hefði að forða landinu frá stjórn hægriflokkanna.
Samkvæmt spá NRK fær Verkamannaflokkurinn 31,8% atkvæða, tæpri prósentu minna en í kosningum fyrir fjórum árum, og 56 þingmenn, tapar 5. Sósíalíski vinstriflokkurinn fær 9,8%, bætir við sig prósentu og fær 17 þingmenn, bætir við sig tveimur. Miðflokkurinn fær 6,8% atkvæða, bætir við sig 0,3% og einum þingmanni, fær 12. Þessir þrír flokkar hafa myndað meirihlutastjórn í Noregi undanfarin fjögur ár.
Framfaraflokkurinn er fær 21,6% samkvæmt spánni, tapar 0,5%, og fær 39 þingmenn, bætir við sig einum. Hægriflokkurinn fær 15,1%, bætir við sig prósentu og fær 26 þingmenn, bætir við sig 3. Kristilegi þjóðarflokkurinn fær 6% atkvæða og 10 þingmenn, tapar einum. Vinstriflokkurinn fær 4,5% og 8 þingmenn, tapar tveimur og Rauði flokkurinn fær 2,4% atkvæða og 1 þingmenn en hafði engan áður.