Venesúela kaupir rússnesk vopn

Hugo Chavez forseti Venesúela í vikulegum sjónvarpsþætti sínum
Hugo Chavez forseti Venesúela í vikulegum sjónvarpsþætti sínum "Alo Presidente" í Caracas. Reuters

Rússar hafa samþykkt að lána Venesúela meira en tvo milljarða bandaríkjadala til vopnakaupa, að sögn Hugo Chavez forseta Venesúela. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lánið verður notað til að kaupa nærri 100 rússneska skriðdreka og loftskeytakerfi til varnar loftárásum.  Chavez sagði í vikulegu sjónvarpsávarpi að vopnin ætti að nota til að styrkja varnarviðbúnað Venesúela.

Vaxandi spenna er milli Venesúela og nágrannaríkisins Kólumbíu því það síðarnefnda er með áform um að veita Bandaríkjunum aðgang að mörgum herstöðvum í landinu.

Chavez, sem er sósíalisti, sagði í sjónvarpsávarpinu að ákvörðun Kólumbíumanna um að opna herstöðvar fyrir Bandaríkjamönnum væri ógn við öryggi Venesúela. Rússnesku loftskeytakerfin myndu verja landið fyrir loftárásum.

Þá sagði Chavez að miklar olíu-og gasauðlindir landsins krefðust hervarna. „Við eigum stærstu olíuauðlindir í heimi. Heimsveldið hefur augastað á þeim,“ sagði hann og notaði orðalag sem honum er tamt þegar hann vísar til Bandaríkjanna.

Venesúela hefur gert vopnakaupasamninga við Rússa að andvirði meira en fjögurra milljarða bandaríkjadala á undanförnum árum. Keyptar hafa verið m.a. 24 Sukhoi orrustuþotur, fjöldi bardagaþyrlna og 100 þúsund Kalashnikov hríðskotarifflar. 

Í nóvember í fyrra héldu Rússar og Venesúelar sameiginlega heræfingu í Karíbahafi, nálægt bandarískri lögsögu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert