Ástvinamissir eykur líkur á hjartaáfalli

Fólki sem syrgir látinn ástvin er margfalt hættara við að fá hjartaáfall, samkvæmt nýlegri rannsókn Heart Foundation í Ástralíu. Vísindamenn segja að líkurnar hafi allt að sexfaldast skömmu eftir ástvinamissi og með réttu sé því hægt að tala um að fólk geti dáið úr sorg.

Rannsókn Heart Foundation tók til 160 einstaklinga og hafði um helmingur þátttakenda misst ástvin, maka eða barn.

„Rannsóknir sýndu fram á hækkaðan blóðþrýsting, örari hjartslátt og breytingar á ónæmiskerfi þeirra einstaklinga sem syrgðu látinn ástvin. Allt þetta eykur mjög líkurnar á hjartasjúkdómum,“ segir Thomas Buckley sem stýrði rannsókninni.

Hann segir einkennin hafa komið í ljós mjög fljótlega eftir fráfall ástvinar. Kornungt fólk, um eða yfir þrítugt, sýndi sömu einkenni og þeir sem eldri eru. Rannsóknin sýndi fram á að verulega dró úr einkennum eftir sex mánuði frá ástvinamissi og eftir tvö ár hafði jafnvægi náðst á ný.

Vísindamenn telja að margfalt aukið flæði streituhormóna skýri þessa auknu hættu á hjartasjúkdómum í sorgarferli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka