750 þúsund níðingar stöðugt á netinu

Hundruð þúsunda níðinga vafra stöðugt um netið í þeirri von að komast í samband við börn, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

„Vefsíðum með barnaklámi fjölgar mjög ört. Við áætlum að 750 þúsund níðingar, að minnsta kosti, sem haldnir eru barnagirnd, séu stöðugt að vafra á netinu,“ segir Najat Maala, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málum sem tengjast barnavændi og barnaklámi.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, áætlar að fleiri en fjórar milljónir vefsíða, sem tengjast barnaklámi, séu virkar á netinu. Á þeim er að finna myndefni af kornungum börnum, jafnvel tveggja ára og yngri.

Yfir 200 nýjum barnaklámmyndum er dreift á netinu daglega, að sögn Najat Maala. Hún bendir á að framleiðsla og dreifing á klámfengnu myndefni með börnum, velti allt frá 3 upp í 20 milljarða dollara á ári eða sem nemur tæplega 400 til 2.500 milljörðum íslenskra króna.

„Það er ekki bara að myndunum fjölgi heldur verða þær sífellt grófari,“ segir Najat Maala, erindreki Sameinuðu þjóðanna. Hún áætlar að 10 þúsund til 100 þúsund börn séu fórnarlömb barnaklámiðnaðarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert