Kynþáttahatur er undirrótin

Jimmy Carter fyrrverandi forseti Bandaríkjanna segir kynþáttahatur undirrót árása á …
Jimmy Carter fyrrverandi forseti Bandaríkjanna segir kynþáttahatur undirrót árása á Obama forseta. AP

Undirrótin að óvæginni gagnrýni á Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, er kynþáttahatur, að mati Jimmys Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Carter sagði þetta í viðtali á NBC sjónvarpsstöðinni.

Carter kvaðst búa í Suðurríkjum Bandaríkjanna og hafa séð þau ná miklum framförum. „En þessi tilhneiging til kynþáttahaturs er enn til og ég held að hún hafi stungið upp kollinum vegna þess að margt hvítt fólk, ekki bara í Suðurríkjunum heldur í öllu landinu, trúir því að afrískir Ameríkanar  séu ekki hæfir til að leiða þessa miklu þjóð,“ sagði Carter. 

Carter lét þessi orð falla viku eftir að repúblikaninn Joe Wilson hrópaði „þú lýgur“ að Obama Bandaríkjaforseta er hann ávarpaði þingið og þúsundir mótmæltu stjórnarháttum Obama í Washington.

Ýmsir þingmenn demókrata og stjórnmálaskríbentar hafa einnig bent á tilhneigingar sem nú verður vart og varað við þeim. Þar á meðal eru frammíköll, ógnanir og prestar sem leiða söfnuði sína í bæn fyrir því að Obama deyi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka