Mjólkin flæðir í Belgíu

Evrópskir mjólkurframleiðendur helltu niður um þremur milljónum lítra af mjólk í Belgíu í dag. Er þetta liður í aðgerðum þeirra í að vekja athygli á bágri stöðu bænda í álfunni vegna verðlækkunar á mjólkurvörum. Eru það samtökin Via Campesina sem stóðu á bak við gjörninginn í Vallóna héraði.

Samkvæmt upplýsingum frá hópnum frömdu að minnsta kosti þrír franskir bændur sjálfsvíg í síðustu viku á sama tíma og yfir fjörtíu þúsund mjólkurframleiðendur hafa hætt að senda framleiðslu sína í mjólkurbú. 

„Örvæntingin fær sífellt fleiri framleiðendur til liðs við hreyfinguna," segir Romuald Schaber, formaður evrópsku mjólkursamtakanna. Segir hann að stjórnmálamenn verði að bregðast strax við til þess að forða um 100 þúsund bændum frá þroti.

Verð á mjólkurvörum hefur hrunið undanfarin misseri vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar fjármála- og efnahagskreppunnar. Frá árinu 2007 hefur verð á mjólkurvörum lækkað um meira en helming í einhverjum ríkjum Evrópu.

Mjólkurframleiðendur hafa mótmælt í Austurríki, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Lúxemborg, Hollandi, Spáni og Sviss að undanförnu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert