Erkibiskupinn af Kantaraborg, dr. Rowan Williams, hefur blandað sér í umræðuna um ofurháa kaupauka bankamanna. Honum finnst enn skorta á uppgjör vegna hrunsins í fyrra líkt og iðrun bankamanna vegna þeirra öfga sem leittu til efnahagshrunsins.
Dr. Williams, sem er leiðtogi Ensku kirkjunnar, telur að breska ríkisstjórnin hefði átt að grípa í taumana og setja hömlur við kaupaukagreiðslunum. Hann varar einnig við því að bilið á milli ríkra og fátækra muni draga úr starfhæfni samfélagsins, að því er fram kemur hjá The Times.
Dr. Williams var í viðtali við Newsnight fréttaskýringaþátt BBC og sagði: „Maður hefur ekki á tilfinningunni að það hafi verið gert upp sem gerðist í fyrra. Það hefur ekki orðið það sem ég, sem kristinn maður, myndi kalla iðrun. Við höfum ekki heyrt fólk segja: ,Í raun höfðum við rangt fyrir okkur og grundvöllurinn sem við byggðum á var óraunverulegur, tómur'.“
Erkibiskupinn var spurður hvort fjármálageirinn (City) væri aftur að sækja í sama farið. Hann kvaðst hafa áhyggjur af því og í því fælist nákvæmlega það sem honum finnst skorta á „uppgjör“. Menn bregðist í því að nefna það sem fór úrskeiðis.
„Að nefna það sem ég kallaði í fyrra ,skurðgoðadýrkun', það er að gefa hlutum þá eigind og innihald sem þeir ekki hafa.“ Þar vísaði erkibiskupinn til greinar sem hann skrifaði í fyrra í The Spectator og varaði við því að tilbeiðsla þjóðfélagsins á ríkidæmi væri að snúast upp í skurðgoðadýrkun.