Lögreglan í Indónesíu segir að íslamski hryðjuverkamaðurinn Noordin Mohamed Top hafi látist í lögregluaðgerðum á Mið-Jövu. Bambang Hendarso Danuri, lögreglustjóri landsins, segir að Noordin, sem er eftirlýstur fyrir hótelsprengjutilræði á Djakarta, sé á meðal fjögurra sem féllu skammt frá borginni Solo.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem yfirvöld í Indónesíu segi að Noordin sé látinn.
Noordin var liðsmaður samtakanna Jemaah Islamiah, sem stóðu á bak við sprengjuárásir á Balí árið 2002 og 2005 með þeim afleiðingum að 202 létust.
Fréttaskýrandi BBC á Djakarta segir að lögreglan sé þess fullviss að Noordin sé látinn vegna þess að hún hafi rannsakað fingraför hinna látnu, til að bera kennsl á viðkomandi.