Ahmadinejad: Helförin lygi

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti ítrekaði andúð sína á gyðingum og Ísraelsríki í ræðu við háskólann í Teheran í dag. Fullyrti forsetinn að helförin væri byggð á lygum. „Ástæðan fyrir stofnun Ísraelsríkis er lygi,“ sagði forsetinn við góðar undirtektir.

Þá sagði forsetinn Írana hafa rétt til að setja spurningamerki við tilvist Ísraelsríkis. Að standa uppi í hárinu á Ísraelsmönnum væri skylda hvers þegns í Íran, sem og skylda gagnvart íslamskri trú almennt.

Á sama tíma var efnt til árlegra fjöldamótmæla gegn Ísraelsríki í Íran sem fram fer á síðasta föstudegi föstumánaðarins Ramadan.

Íranskar sjónvarpsstöðvar greindu frá mótmælunum en létu ógert að sýna frá stuðningsfundum fylgismanna Mirs Husseins Mousavis, helsta andstæðings Ahmadinejads í forsetakosningunum umdeildu fyrr í sumar.

Klerkastjórnin hafði varað andstæðinga sína við að snúa mótmælunum gegn Ísraelsríki upp í andóf gegn stjórninni en að minnsta kosti 10 slösuðust í ryskingum á milli öryggissveita og andstæðinga forsetans.

Minnt er á í þessu myndskeiði Reuters-fréttastofunnar að henni sé meinað að starfa utan skrifstofu sinnar í Teheran.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert