Dregur úr bráðnun hafíssins

Meiri hafís er nú á norðurskautssvæðinu en undanfarin tvö haust.
Meiri hafís er nú á norðurskautssvæðinu en undanfarin tvö haust. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hafísinn á norðurskautssvæðinu bráðnaði ekki jafn mikið í sumar og á undanförnum tveimur árum, að sögn vísindamanna. Ísþekjan varð minnst 12. september síðastliðinn og þakti þá 5,10 milljónir ferkílómetra að því sem fram kemur á fréttavef BBC.

Ísþekjan minnkaði meira sumurin 2008 og 2007 þegar hún varð minnst og þakti þá 4,1 milljón ferkílómetra. Vísindamennirnir telja að langtímaþróunin sé enn til minni ísþekju á svæðinu. Þeir benda á að þegar hafísinn varð minnstur nú þá þakti hann 24% minna hafsvæði en að meðaltali á árunum 1979-2000.

Greiningin var gerð hjá US National Snow and Ice Data Center í Boulder, Colorado og byggir hún á gervihnattamyndum.

Vísindamennirnir segja að loftslag hafi verið kaldara á norðurskautssvæðinu á þessu ári en í fyrra og þess vegna hafi bráðnunin verið minni. Einnig hafa ríkjandi vindar  dreift ísnum um svæðið.

Einn vísindamannanna, Walt Meier, sagði ástæður kólnandi loftslags ekki ljósar. Í samtali við BBC sagði hann að skýjaðra hafi verið og meira um lægðir á liðnu sumri sem kunni að hafa lækkað hitastigið meira en ella. Ljóst sé að ekki hafi verið jafn hlýtt og sumarið 2007 þegar víða var 2-3°C hlýrra en vanalega á þessum slóðum.

Nú er spurningin hvort árið 2007 reyndist vera hámark bráðnunarinnar eða hvort árið 2009 verður fráviksár með lítilli bráðnun. Það skýrist ekki fyrr en í fyrsta lagi næsta sumar.

Vísindamennirnir hafa nokkrar áhyggjur af því að nú er umtalsverður hluti hafíssins eins vetrar nýís. Honum er mun hættara við bráðnun en þykkari ís sem var ríkjandi á svæðinu á árum áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert