Næstum því 45.000 Bandaríkjamenn deyja árlega, eða 12 á hverri mínútu sem líður, vegna þess að þeir eru ekki sjúkratryggðir og hafa þar af leiðandi ekki aðgang að almennilegri heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vísindamanna við læknavísindadeild Harvard-háskóla.
„Fleiri Bandaríkjamenn deyja á hverjum degi sem líður vegna aðgerðarleysis [...] heldur en af völdum ölvunaraksturs og morða samanlagt,“ segir dr. David Himmelstein, einn höfunda skýrslunnar sem er aðstoðarprófessor við skólann.
Vísindamennirnir segja ósjúkratryggðir fullorðnir Bandaríkjamenn, 64 ára og yngri, séu 40% líklegri til að deyja fyrir aldur fram en þeir sem eru tryggðir.
Hart er nú deilt um tilraunir demókrata til að breyta heilbrigðiskerfinu í landinu, sem kostar Bandaríkjamenn 2,5 billjónir dala. Þeir vilja að allir séu sjúkratryggðir og draga úr kostnaði.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur gert þetta að forgangsverkefni innanlands, en hugmyndir hans hafa mætt mikilli mótstöðu og harðri gagnrýni. Hart er deilt á Bandaríkjaþingi sem hefur tafið framgang mála. Tryggingafyrirtæki og fyrirtæki í heilbrigðisiðnaði eru á meðal þeirra sem berjast gegn hluta áætlunar forsetans.
Harvard-rannsóknin, sem hlaut opinberan rannsóknarstyrk, var birt á netútgáfu American Journal of Public Health.