Helltu milljónum lítra mjólkur

Aukin harka færist í mótmælaaðgerðir evrópskra kúabænda. Franskir og þýskir kúabændur helltu í dag niður milljónum lítra mjólkur við landamæri Frakklands og Þýskalands. Með því vildu þeir mótmæla ört lækkandi afurðaverði í Evrópu.

Verð mjólkurafurða hefur hríðfallið í Evrópu að undanförnu vegna snarminnkandi eftirspurnar í kjölfar efnahagskreppunnar. Dæmi eru um að verð hafi lækkað um allt að helming á undanförnum 18 mánuðum.

Kúabændur í Austurríki, Belgíu, Lúxemborg, Hollandi, Sviss og á Ítalíu og Spáni hafa staðið fyrir mótmælaaðgerðum. Tugir þúsunda kúabænda neita að leggja inn mjólk hjá afurðastöðvum og kjósa frekar að hella henni niður. Í dag bættust svo þýskir og franskir bændur í hóp aðgerðasinna en þessi tvö lönd eru mestu mjólkurframleiðendur innan Evrópusambandsins.

Bændurnir komu saman við landamæri Frakklands og Þýskalands og helltu milljónum lítra mjólkur í ána Rín. Að því loknu óku bændurnir á dráttarvélum sínum yfir landamærin til Þýskalands. Þar flóði mjólk úr tönkum bændanna yfir akra.

Evrópusambandið hafði gefið vilyrði fyrir aðgerðum til stuðnings bændunum. Landbúnaðarráðherrar Evrópusambandslandanna gátu hins vegar ekki komið sér saman um auknar greiðslur til kúabænda á fundi sínum í Brussel 7. september. Síðan þá hafa aðgerðir bændanna stigmagnast. Þeir vilja að ESB grípi til aðgerða nú þegar og hafa lýst yfir mjólkurverkfalli þar til aðgerðir hafa verið kynntar.

Evrópusambandið hefur gefið það út að kvótar í mjólkurframleiðslu verði minnkaðir um eitt prósent á ári og að kvótakerfið verði lagt af árið 2015. Evrópuráðið hefur reynt að sefa bændur og lofað þeim takmarkaðri fjárhagsaðstoð en umleið sagt að hvergi verði hvikað frá fyrri ákvörðun um aflagningu kvótakerfis í mjólkurframleiðslu innan ESB árið 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert