Á fimmta tug manna var tekin höndum þegar lögreglu lenti saman við óeirðaseggi í fátækrahverfinu Molenbeek-Saint-Jean í Brussel í gær. Hverfið er eitt það fátækasta í borginni en íbúar þess eru einkum innflytjendur frá Marokkó en þetta var annað kvöldið í röð sem að óeirðir brutust út í hverfinu.
Kvöldið áður særðust 9 lögreglumenn í átökunum en 10 lögreglubifreiðar urðu þá fyrir skemmdum af völdum óeirðaseggja.
Yfirvöld hafa bannað hvers kyns uppákomur í hverfinu um helgina til að koma í veg fyrir frekari átök og er þá einkum horft til sunnudagsins, síðasta dagsins í Ramadan, föstumánuði múslíma.
Eldsprengjum og öðru lauslegu var grýtt að lögreglu en átökin brutust út þegar lögreglan krafði ungan mann um að framvísa skilríkjum.
Fjölskylda mannsins og vinir brugðust ókvæða við með fyrrgreindum afleiðingum en um 60 manns höfðu þá safnast saman til að fylgjast með viðskiptunum.