Blæs lífi í friðarviðræður

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, þingar á þriðjudag með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að Obama muni ræða við þá Netanyahu og Abbas hvorn fyrir sig en sameiginlegur fundur með leiðtogunum sé fyrirhugaður í framhaldinu. Fundahöldin verða í tengslum við setningu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York.

BBC hefur eftir háttsettum embættismanni í Hvíta húsinu að ekki sé að vænta neinnar yfirlýsingar að loknum fundahöldunum á þriðjudag en nauðsynlegt sé að skoða viðræður leiðtoganna í réttu samhengi.

„Fyrir réttum níu mánuðum geisaði stríð á Gaza. Núverandi Ísraelsstjórn hefur hins vegar aðeins verið við völd í fimm mánuði. Og nú setjast leiðtogarnir að sama borði og reyna að brúa bilið í samskiptum sínum,“ er haft eftir embættismanninum.

Deilur um byggingaframkvæmdir Ísraelsmannna í landtökubyggðum á Vesturbakkanum hafa komið í veg fyrir tilraunir Bandaríkjamanna til að koma á friðarviðræðum milli leiðtoganna.

Bandaríkjastjórn hefur tekið undir kröfur Palestínumanna þess efnis að byggingaframkvæmdum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum verði hætt. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels hefur boðist til að fresta að hluta framkvæmdum í nokkra mánuði. Þó ekki í austurhluta Jerúsalem eða á þeim svæðum þar sem framkvæmdir eru komnar vel á veg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert