Evrópusambandið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fordæmd eru ummæli sem Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lét falla í síðustu viku en hann sagði í ræðu að helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni væri uppspuni.
„Forsæti Evrópusambandsins fordæmir yfirlýsingar, sem Ahmadinejad forseti lét falla á útifundi í Teheran þar sem hann ítrekaði að hann hafnaði helförinni og tilvistarrétti Ísraelsríkis," segir í yfirlýsingunni.
„Slíkar yfirlýsingar ýta undir gyðingahatur og hatur almennt. Við hvetjum leiðtoga íslamska lýðveldisins Írans að leggja með uppbyggilegum hætti sitt að mörkum til að stuðla að friði og öryggi í Miðausturlöndum.
Ahmadinejad hefur áður viðhaft svipuð ummæli og þau hafa alltaf verið fordæmd á alþjóðavettvangi. Forseti Írans er væntanlegur til New York í vikunni þar sem hann mun ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.