Yfirmenn lögregluyfirvalda á átakasvæðunum í Afganistan hafa sett fram efasemdir um gagnsemi þess að fjölga í fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í landinu. Segja þeir að slíkt muni einungis ýta undir þá tilfinningu Afgana að NATO sé hernámslið í landinu.
Grein var frá því í gærkvökldi að Stanley McChrystal, yfirmaður bandaríska herliðsins í landinu, hafi sagt í trúnaðarskýrslu að verði hermönnum ekki fjölgað í Afganistan muni stríðið þar tapast.
„Það er mjög erfitt fyrir fólkið á svæðinu að sætta sig við það að útlendingar komi til landsins og segist vera að berjast fyrir frelsi okkar," segir Azizudin Wardak, lögreglustjóri í Paktia-héraði. „Það er mjög erfitt að færa rök fyrir því að ekki sé um innrásarlið, að ekki sé um herlið að ræða.
Mohammad Pashtun, yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í suðurhluta Kandahar þar sem staða talibana er hvað sterkust, tekur í sama streng og segir að viturlegra væri að verja meiri fjármunum til uppbyggingar afganska hersins.
„Fjölgun í erlenda herliðinu er ekki gagnleg," segir hann. „Fyrir hvern bandarískan hermann getum við til dæmis fengið fimmtán afganska her- eða lögreglumenn.
Mohammad Zahir Azimi, varnarmálaráðherra Afganistans, dregur hins vegar ekki í efa að þörf sé á fleiri erlendaum hermönnum á svæðinu en segir að senda eigi þá til Pakistans, handan afgönsku landamæranna.
„Áherslan ætti að vera á þeim svæðum þar sem uppreisnarmenn koma yfir landamærin til Afganistans," segir hann. „Áherslan ætti að vera utan Afganistans og beinast gegn bjargráðum og griðarstöðum uppreisnarmanna þar."
Barack Obama Bandaríkjaforseti samþykkti fyrr á þessu ári að fjölga bandarískum hermönnum í Afganistan um 21.000 þannig að fjöldi bandarískra hermanna í Afganistan í lok þessa árs verði 68.000.