Fáklæddur Jeltsín á rölti

Bill Clinton þurrkar tárin eftir að hafa hlegið að brandara …
Bill Clinton þurrkar tárin eftir að hafa hlegið að brandara sem Bórís Jeltsín í New York árið 1995. Reuters

Búist er við að ný bók, sem kemur út undir lok september, muni vekja mikla athygli. Í bókinni eru rakin samtök, sem Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, átti við vin sinn, sagnfræðinginn Taylor Branch, á meðan Clinton var enn forseti.

Branch tók alls 79 viðtöl við Clinton upp á segulband og þessi viðtöl eru uppistaða bókarinnar  The Clinton Tapes: Wrestling History with the President. Þeir Clinton og Branch kynntust fyrst árið 1972 þegar þeir störfuðu við forsetaframboð Georges McGoverns. Branch, sem er er virtur og verðlaunaður höfundur, segir frá bókinni og samtölunum við Clinton í löngu viðtali við blaðið USA Today.

Í bókinni segir Clinton m.a. frá heimsókn Bórís Jeltsíns, þáverandi forseta Rússlands, til Bandaríkjanna. Jeltsín var afar drykkfelldur á þessum tíma og öryggisverðir áttu fullt í fangi með að hafa á honum stjórn.

Jeltsín bjó í Blair House, gestahúsi Hvíta hússins, og eitt sinn villtist hann og var að rangla í kjallara hússins þegar öryggisvörður kom að forsetanum, hélt að hann væri innbrotsþjófur og ætlaði að handtaka hann.

Eina nóttina laumaðist Jeltsín út úr húsinu. Bandarískir leyniþjónustumenn fundu hann skömmu síðar á Pennsylvania Avenue á nærbuxunum þar sem hann var að reyna að stöðva leigubíl. Jeltsín gaf þá skýringu að hann hefði ætlað að panta sér pítsu.  

Branch spurði Clinton m.a. um Lewinsky-málið sem hafði næstum orðið honum að falli. Forsetinn vildi lítið tala um það en Branch sagði, að í ágúst 1999, skömmu eftir að öldungadeild Bandríkjaþings samþykkti í atkvæðagreiðslu að svipta hann ekki embætti, hafi Clinton skyndilega opnað sig. Sagði hann, að ástarsambandið við lærlinginn Monicu Lewinsky hefði byrjað vegna þess að hann missti stjórn á sér.  

Þá kemur fram í bókinni, að þeir Clinton og Al Gore, sem var varaforseti Clintons, hefðu rifist harkalega eftir að Gore tapaði forsetakosningunum árið 2000.  Clinton fannst að Gore hefði átt að nýta krafta hans betur í kosningabaráttunni og m.a. senda hann til  Arkansas eða New Hampshire, ríkja þar sem forsetinn var vinsæll.

En Gore svaraði að hneykslanleg hegðun Clintons hefði fylgt sér alla kosningabaráttuna og að hneykslismálin hefðu á endanum leitt til þess að Gore tapaði kosningunum.

Branch segir, að Clinton hafi fengið prófarkir að bókinni til yfirlestrar. Hann hafi hringt stöðugt, greinilega taugaóstyrkur yfir því sem þar kemur fram. Branch segist hins vegar ekki hafa tekið í mál að breyta neinu. 

Frásögn USA Today

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert