Tuttugu og sex ára bresk tónlistarkona var í morgun dæmd í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að stunda kynlíf með fimmtán ára nemanda sínum. Þá varr henni bannað að vinna með börnum til æviloka og gert að skrá sig sem kynferðisafbrotamann næstu tíu ár. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Kennarinn Helen Goddard hefur viðurkennt að hafa stundað kynlíf um það bil sex sinnum með kvenkyns nemanda sínum frá því í febrúar og fram í júlí á þessu ári. Náin kynni munu hafa tekist með Goddard og nemanda hennar er þær fóru að fara saman á kaffihús eftir kennslustundir.
Nemandinn staðhæfir að hún hafi stundað kynlíf með kennaranum að eigin frumkvæði. Foreldrar hennar segja hins vegar að Goddard hafi algerlega brugðist í starfi auk þess sem hún hafi brugðist trausti þeirra.
Stúlkan dvaldi m.a. næturlangt á heimili Goddard og fór með henni í helgarferð til Parísar.
Upp komst um sambandið eftir að tónlistarskólanum, þar sem Goddard kenndi, barst nafnlaus ábending um það. Í kjölfrið var gerð húsleit á heimili hennar og hún handekin.
„Þetta er erfitt mál. Gögn málsins sýna að þú áttir í kynlífssambandi við stúlkuna í marga mánuði," sagði dómarinn Anthony Pitts er hann kvað upp úrskurð sinn. „Það er að sjálfsögðu brot gegn lögum að stunda kynlíf með einstaklingi undir sextán ára aldri. Slíkt er alvarlegt brot í sjálfu sér. Það sem gerir málið enn alvarlegra er það að þú varst tónlistarkennari hennar á þessu tímabili og einnig áður en kynlífssambandið hófst."