Mjólkurframleiðendur söfnuðust saman fyrir framan höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel og helltu þar niður mjólk í mótmælaskyni. Þeir halda því fram að þúsundir starfsbræðra þeirra muni fara á hausinn á næstunni. Talsmaður þeirra hefur óskað eftir fundi hið bráðasta með Jose Manuel Barroso sem nýverið var endurkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
„Þessi aðgerð okkar er táknræn fyrir þær tæplegu 40 milljónir lítra sem hellt er niður á degi hverjum í Evrópu,“ segir Romuald Schaber, formaður mjólkurnefndar Evrópu. Bendir hann á að mjólkurverð hafi síðan 2007 lækkað um rúmlega helming. Framkvæmdastjórnin hefur um lengri tíma reynt að slá á óánægju mjólkurbænda en án árangurs.
Kúabændur hafa staðið fyrir mótmælum í Austurríki, Þýskalandi, Ítalíu, Lúxemborg, Hollandi, Spáni og Sviss samtímis því sem 40 þúsund mjólkurframleiðendur eru sagðir vera í verkfalli sem stendur.
Mótmælaaðgerðin í Brussel í dag kemur í beinu framhaldi af því að bújarðarráðherra Evrópusambandsins mistókst að koma saman hjálparpakka til handa greininni nú í byrjun mánaðarins. Í nóvember sl. samþykkti landbúnaðarráðherra ESB að auka mjólkurkvótann um 1% á ári fram til áramóta 2014-2015 þegar ætlunin er að afnema kvótana með öllu. Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að innleiða takmarkaði styrki en hafnar því að þar með sé hún að svíkja fyrri yfirlýsingar þess efnis að kvótakerfið verði afnumið með öllu.