Hundruð þúsunda manna eru nú saman komin á byltingartorginu í Havana til að fylgjast með tónleikum fjölmargra listamanna. Eins og sjá má á myndunum er stemningin einstök í Kúbusólinni. Alls koma 15 listamenn fram á tónleikunum en þeir eru frá Spáni, Kúbu og Rómönsku-Ameríku.
Að sjálfsögðu er ókeypis á tónleikana en fram kemur á fréttavef breska útvarpsins, BBC, að kólumbíski söngvarinn Juanes, sem skipulagði tónleikana, „Friður án landamæra“, hafi fengið morðhótanir frá andstæðingum Kúbustjórnar í Miami.
Búist er við hálfri milljón manna á tónleikana og hafa margir lagt á sig langa leið til að bera dýrðina augum.
Talsverður hiti er í Havana og að sögn fréttaritara BBC hefur þurft að bera nokkra frá torginu af völdum ofhitnunar.
„Við höfum verið hérna síðan frá því þrjú í morgun og beðið eftir öllum, beðið eftir Juanes og Olgu Tanon," sagði Luisa Maria Canales, 18 ára gamall verkfræðinemi, í samtali við AP-fréttastofuna.