Afar skiptar skoðanir eru í Danmörku vegna bókar, sem dæmdur morðingi hefur skrifað og á að koma út í dag. Telja sumir að stöðva eigi útgáfu bókarinnar af tillitssemi við ættingja þeirra sem hann myrti en aðrir að ekki megi hefta tjáningarfrelsi hans.
Bókin heitir En morders bekendelser og er eftir Peter Lundin. Að sögn danskra fjölmiðla lýsir Lundin sér í bókinni sem danskri spegilmynd af American Psycko en bók með því nafni eftir Bret Easton Ellis kom út á síðasta áratug og fjallaði um siðblindan verðbréfasala sem framdi morð.
Peter Lundin er fæddist í Danmörku árið 1971 en þegar hann var sjö ára gamall flutti fjölskylda hans til Bandaríkjanna. Árið 1993 var Lundin dæmdur í 20 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að myrða móður sína. Hann fékk reynslulausn og var þá vísað úr landi til Danmerkur.
Árið 2000 var hann síðan handtekinn í Danmörku, grunaður um að hafa myrt sambýliskonu sína og syni hennar tvo. Lundin játaði á sig morðin en lík mæðginanna fundust aldrei.