Lögregla segist óttast, að margir hafi látist eða slasast þegar rúta fór út af veginum nálægt Düsseldorf í Þýskalandi í dag og valt niður hlíð.
Slökkviliðsmenn og björgunarsveitir hafa verið send á staðinn. Lögreglan segist ekki hafa nánari upplýsingar um slysið.
Að sögn þýskra fjölmiðla voru um það bil 15 manns í rútunni, sem var á ferð á sveitavegi. Rútan stöðvaðist á árbakka og nokkrum tókst að komast út en aðrir voru fastir inni. Einn fjölmiðlinn sagði að 5 hefðu látið lífið og annar að 4 hefðu látist.