Sarkozy vill refsiaðgerðir gegn skattaskjólum

Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy BENOIT TESSIER

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy sagði í dag að hann myndi þrýsta á G20 ríkin til að beita refsiaðgerðum á næsta ári gegn skattaskjólum. Hann sagði umræðuna um skattaskjól eitt af stóru málunum á fundi ríkjanna í Pittsburg um helgina og vildi að komið yrði á refsiaðgerðum gegn skattaskjólum strax í byrjun næsta árs.

“Skattaskjól og bankaleynd eru liðin tíð” sagði Sarkozy í viðtal við franska sjónvarpið í New York í dag, þar sem hann sótti alþjóðaþing Sameinuðu Þjóðanna. “Ég mun berjast fyrir refsiaðgerðum í Pittsburg á morgun.”

Á ráðstefnu G20 ríkjanna í London í apríl síðastliðnum, samþykktu þjóðarleiðtogar stærstu efnahagsvelda heimsins að útrýma skattaskjólum í alþjóðlegum aðgerðum sem miðuðu að því að ná til skattsvikara.

Nú þegar hafa tíu ríki verið tekin af hinum svokallaða gráa lista Efnahags- og framfararstofnunar Evrópu, OECD, yfir skattaskjól, eftir að hafa samþykkt reglur sem tryggja meira gegnsæi í fjármálakerfi þeirra.

Mikið hefur verið horft til skattaskjóla í kjölfar efnahagshrunsins, ekki síst vegna misnotkunar á bankaleynd og möguleika á að færa peninga í skjól frá skattheimtu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert