Sú ákvörðun borgaryfirvalda í Sankti Pétursborg að leyfa stórfyrirtækinu Gazprom að byggja rúmlega 400 metra háan skýjakljúf í hjarta bæjarins hefur vakið hörð viðbrögð. Sankti Pétursborg á sér langa sögu, en hún fagnaði 300 ára afmæli sínu árið 2003.
Talsmenn UNESCO (Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna) hafa varað við því að gangi þessi áform eftir þá séu miklar líkur til þess að borgin verði tekin út af heimsminjalista stofnunarinnar.
„Þetta er stórbrotin bygging sem reist í samræmi við allar byggingarfræðilegar reglur,“ segir Valentína Matviyenko, borgarstjóri Sankti Pétursborgar, sem fyrr í vikunni gaf leyfi sitt fyrir byggingunni. Hún er ekki ein um þá skoðun að byggingin geti orðið nýtt tákn fyrir þessa næststærstu borg Rússlands.
Ráðgert er að reisa bygginguna, sem nefnd hefur verið Okhta-miðstöðin, á bökkum Stóru-Okhta árinnar. Samkvæmt því sem fram kemur í rússneskum fjölmiðlum hefur leyfileg hámarkshæð bygginga í borginni verið 100 metrar, sem þýðir að byggingin myndi fullbúin tróna hátt yfir allri byggð Sankti Pétursborgar.
„Þetta er hneyksli,“ segir Antonína Elíseva, talskona samtaka sem nefnast Lifandi borg og hafa það að markmiði að vernda listrænan og menningarlegan arf Sankti Pétursborgar.
„Yfirstjórn borgarinnar hefur ekki aðeins vikið byggingarlistarlegum sjónarmiðum til hliðar heldur einni almenningsálitinu og nú mati UNESCO,“ segir Elíseva.
Fulltrúar stjórnmálasamtakanna Yabloko segjast hafa lagt fram stjórnsýslukæru á hendur borgaryfirvöldum vegna málsins og segjast ætla að berjast til síðasta blóðdropa til þess að stoppa framkvæmdirnar.
Árið 2006 var haldin hönnunarkeppni um bygginguna og bar breska arkitektastofan RMJM sigur úr býtum. Hugmynd hennar gengur út áf að byggingin verði oddmjó og með mörgum flötum sem skipt geta litum í samræmi við breytta útibirtu. Stefnt er að því að lokið verði við að reisa bygginguna árið 2016.
Gazprom hefur þrátt fyrir alheimskrísuna vegnað afar vel á sl. misserum. Ráðgert er að byggingin muni kosta 2,4 milljarða bandaríkjadala.