Talið er að þrautþjálfaðir glæpamenn hafi verið að verki þegar rán var framið í peningageymslu í Västberga í suðurhluta Stokkhólms í morgun. Talið er að um 200 atvinnuræningjar séu í Svíþjóð og telur lögreglan líklegt að þá sem frömdu ránið í morgun sé að finna í þeim hópi.
Blaðið Dagens Nyheter segir, að sænskir atvinnuræningjar hafi á undanförnum árum beitt þróuðum aðferðum. Þannig hafi verið notaðir hraðbátar, vélskóflur, fergivélar og þróuð sprengiefni. Þyrlur hafi hins vegar ekki verið notaðar fyrr við rán og ræningjarnir í morgun hafi greinilega vitað að þeir myndu koma lögregu í opna skjöldu.
Peningageymslan, sem ráðist var á í morgun, er í eigu fyrirtækisins G4S. Árið 2005 réðust ræningjar ítrekað til atlögu við peningaflutningabíla og geymslur fyrirtækisins og segir Dagens Nyheter að síðan hafi G4S geymt peninga í vel vörðum geymslum. Líklegt sé, að ræningjarnir hafi fengið einhverja aðstoð frá starfsmönnum.
Ekki er talið ólíklegt að ránsfengurinn hafi verið meiri en þær 43 milljónir sænskra króna, jafnvirði 780 milljóna íslenskra króna, sem til þessa er stærsti ránsfengur sem vitað er um í Svíþjóð.