Þjóðaleiðtogar á fundi Öryggisráðsins

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna og …
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands hlusta á umræður á leiðtogafundinum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. KEVIN LAMARQUE

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag einróma ályktun um koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna. Fund Öryggisráðsins sátu þjóðarleiðtogar þeirra 15 þjóða sem sæti eiga í ráðinu. Barack Obama forseti Bandaríkjanna stýrði fundinum og á það sér ekki fordæmi.

Ályktun 1887 biður þær þjóðir, sem ekki hafa undirritað sáttmálann um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT) og stendur til að endurskoða á næsta ári, „að uppfylla allar skyldur sínar“.

Engar beinar vísanir eru til Írans eða Norður-Kóreu í ályktuninni. Hins vegar er vitnað til ályktana Öryggisráðsins um að stjórnvöld í Íran láti af framleiðslu kjarnorkueldsneytis og að yfirvöld í Norður-Kóreu láti af kjarnorkuvopnaáætlun sinni.

Í ályktun Öryggisráðsins eru þjóðir heims hvattar til að starfa saman að því að ráðstefnan sem ætlað er að endurskoða NPT-sáttmálann um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna á næsta ári verði til þess að styrkja sáttmálann og setja raunhæf markmið sem hægt verður að ná. 

Þau lönd sem ekki hafa nú þegar undirritað NPT-sáttmálann eru hvött til að samþykkja hann til þess að hann nái til sem flestra og sem fyrst. Þjóðirnar eru hvattar til að fara eftir ákvæðum sáttmálans í millitíðinni.

Leiðtogafundurinn er haldinn viku áður en fastafulltrúar í Öryggisráðinu, þ.e. frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína, Bretlandi og Frakklandi auk Þýskalands,  hefja undirbúningsviðræður við Saeed Jalili, helsta samningamann Írana í kjarnorkumálum.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, ræðir við Bernard Kouchner, utanríkisráðherra, á …
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, ræðir við Bernard Kouchner, utanríkisráðherra, á leiðtogafundinum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka