Starfsmenn sumra verksmiðja í Indónesíu og Víetnam, sem framleiða íþróttaskó fyrir erlend fyrirtæki, þræla oft á sultarlaunum, að sögn norsku Neytendasamtakanna.
„Í sumum verksmiðjum komumst við að því að dregið var af laununum fyrir útgjöldum vegna rafmagns, vatns og matar, einnig fyrir hreingerningum á salargólfinu,“ segir Inger Johanne Birkeland, fulltrúi Neytendasamtakanna, við Aftenposten. Fólkið sé einnig óvarið fyrir hættulegum efnum og vélum.
Stærstu skófyrirtækin, Adidas, Reebok og Puma, eru sögð hafa sýnt mikinn samstarfsvilja, þau geri einnig miklar kröfur til undirverktaka sem framleiða íhluti í skóna. Asics, Brooks og Saucony vildu ekki veita neinn aðgang eða upplýsingar. Stærsta skófyrirtækið, Nike, hafnaði að vísu samvinnu en virtist samt tryggja að lágmarkskröfur væru virtar.