Lögregla í Þýskalandi er með mikinn viðbúnað um allt land vegna hættu, sem talin er vera á hryðjuverkaárásum í tengslum við þingkosningar, sem þar fara fram um helgina. Lögreglumenn vopnaðir vélbyssum eru nú á flugvöllum og helstu lestarstöðvum landsins og brynvarin ökutæki sjást einnig við flugbrautir, þar á meðal á flugvellinum í Frankfurt.
Bandaríska utanríkisráðuneytið hvatti í gær Bandaríkjamenn, sem eru á ferð í Þýskalandi, til að vera á varðbergi. Vísað var til myndbandsávarp, sem hryðjuverkasamtökin al-Qaeda sendu frá sér nýlega þar sem varað var við árásum í Þýskalandi.
Þýska blaðið Bild sagði í dag, að bandaríska leyniþjónustan CIA hefði einnig varað þýsk stjórnvöld við því, að hætta væri á að hryðjuverkamenn myndu reyna að skjóta flugskeytum á farþegaflugvélar.
Íslamskir hryðjuverkamenn hafa aldrei gert árásir á Þýskaland en komið hefur verið upp um hópa, sem hafa lagt á ráðin um slíkar árásir.