Írar munu líklega samþykkja Lissabon-sáttmálann í næstu viku, samkvæmt úrslitum skoðanakönnunar sem birt var í dag. Könnunin sýndi að 55% ætli að kjósa með sáttmálanum, 27% gegn honum en 18% höfðu ekki gert upp hug sinn.
Yfir 60% þeirra sem tóku afstöðu ætla að styðja sáttmálann, samkvæmt skoðanakönnun Sunday Business Post. Írar gengu áður að kjörborði um Lissabon-sáttmálan í júní 2008. Þá höfnuðu 53,4% kjósenda sáttmálanum og var það töluvert áfall fyrir Evrópusambandið (ESB).
Öll 27 aðildarríki ESB verða að samþykkja Lissabon-sáttmálann. Þjóðþing flestra þeirra hafa samþykkt sáttmálann. Írland er hins vegar eina landið þar sem stjórnarskráin krefst þjóðaratkvæðagreiðslu.
Á föstudaginn var sýndi skoðanakönnun sem Irish Times stóð m.a. fyrir að stuðningur við sáttmálann hefði aukist um tvö prósentustig í 48% á þremur vikum. Andstæðingum sáttmálans hafið einnig fjölgað samkvæmt könnuninni og hafði þeim fjölgað um fjögur prósentustig í 33%. Hópur óákveðinna í þessari könnun minnkaði um 6 prósentustig í 19%. Af þeim sem tóku afstöðu voru 59% hlynnt sáttmálanum en 41% á móti.