Pólísinn þynnist hratt

Ísinn bráðnar hratt á pólsvæðunum að sögn breskra vísindamanna.
Ísinn bráðnar hratt á pólsvæðunum að sögn breskra vísindamanna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Breskir vísindamenn hjá stofnun sem fylgist með heimsskautssvæðunum  segja að ísinn á pólsvæðunum bráðni mun hraðar en áður var talið. Vísindamennirnir hafa stuðst við 50 milljón leysigeislamælingar sem hafa verið gerðar úr gervihnetti NASA allt frá árinu 2003.

Vísindamennirnir greina frá því í skýrslu sinni að ísþekjan sé þynnri en búist hafði verið við, að því er fram kemur í Kristeligt Dagblad í dag. Greint var frá niðurstöðunum í vísindatímaritinu Nature.

Á Suðurskautslandinu eru svæði þar sem ísinn hefur þynnst um sem nemur níu metrum frá því mælingarnar hófust árið 2003. Í Grænlandi eru 111 jöklar sem minnkuðu að meðaltali um einn metra á ári. Það er mun meira en ónákvæmari mælingar gáfu til kynna. 

Bráðnunin er mun örari í jaðri jökulsvæða á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Bresku vísindamennirnir segja að sú bráðnun muni valda hækkun sjávaryfirborðs.

Fyrir skömmu síðan sögðu norskir vísindamenn að norðurpólsísinn hafi aukist á undanförnum tveimur árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka