Angela Merkel lýsir yfir sigri

Angela Merkel á fundi stuðningsmanna Kristilega demókrataflokksins í Berlín eftir …
Angela Merkel á fundi stuðningsmanna Kristilega demókrataflokksins í Berlín eftir að fyrstu útgönguspár voru birtar. Reuters

Angela Merkel, kanslari Þýskalands lýsti yfir sigri í dag, þegar draumur hennar um bandalag miðju- og hægrimanna varð að veruleika í dag, eftir að flokkur hennar Kristilegir demókratar vann sigur í þýsku kosningunum í dag.

„Við höfum náð því markmiði okkar að ná öruggum meirihluta til myndunar nýrra ríkisstjórnar,“sagði Merkel yfir sig ánægð við fagnandi stuðningsmenn sína. „Ég vil vera kanslari allra Þjóðverja, svo við getum komið á umbótum í landinu okkar.“

Samkvæmt útgönguspám, sem sjónvarpsstöðvar birtu síðdegis, fær Kristilegi demókrataflokkurinn 33,5% atkvæða. Jafnaðarmannaflokkurinn, sem verið hefur í stjórn með flokki Merkel, fær 22-23% atkvæða samkvæmt spánum og gangi þær eftir er það versta útreið sem flokkurinn fær frá lokum síðari heimsstyrjaldar. 

Merkel lýsti því yfir fyrir kosningar að hún vildi mynda ríkisstjórn með Frjálsa demókrataflokknum, FDP, sem er miðflokkur en flokkarnir tveir sátu lengi saman í ríkisstjórn á ofanverðri síðustu öld. Flokkurinn fær um 15% atkvæða samkvæmt spánum og nægir það flokkunum tveimur til að mynda meirihluta á sambandsþinginu í Berlín.  

„Kjósendur hafa talað og niðurstaðan er mikil vonbrigði fyrir þýska jafnaðarmenn," sagði Frank-Walter Steinmeier, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins og utanríkisráðherra Þýskalands. „Þetta er sár ósigur."  

Guido Westerwelle, leiðtogi FDP, stefnir að því að verða utanríkisráðherra Þýskalands og varakanslari.  Gert er ráð fyrir að FDP leggi áherslu á skattalækkanir til að koma efnahagslífinu af stað að nýju. 

Samkvæmt útgönguspám fær Die Linke, sem er vinstriflokkur, nærri 13% atkvæða en Græningjar, sem sátu í stjórn með jafnaðarmönnum í tvö kjörtímabil í byrjun aldarinnar, fá aðeins um 10%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert