Bandaríski þingmaðurinn Jim Webb mun hitta Thein Sein, forsætisráðherra Búrma, að máli á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York, að því er skrifstofu demókrataþingmannsins hefur skýrt frá. Bandaríkjastjórn hefur lagt hart að lausn Aung San Suu Kyi úr stofufangelsi og var staða hennar rædd.
Bandaríkjastjórn lýsir yfir ánægju með viðræðurnar en hún segir þetta í fyrsta sinn í langan tíma sem að herforingjastjórnin lýsi yfir raunverulegum vilja til að ræða samskipti ríkjanna.
Þá hitti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Then Sein að máli, en skammt er síðan sá fyrrnefndi heimsótti Búrma til að þrýsta á um lausn pólitískra fanga.
Rúmur mánuður er síðan Webb hitti Suu Kyi að máli í Yangon eins og greint hefur verið frá á fréttavef Morgunblaðsins.
Áður hafði Webb rætt við Than Shwe, æðsta leiðtoga herforingjastjórnarinnar í Búrma.
Þekktasti pólitíski fanginn
Suu Kyi er án nokkurs vafa þekktasti pólitíski fangi landsins en hún var nýlega dæmd í 18 mánaða stofufangelsi til viðbótar fyrri dómi fyrir að hleypa Bandaríkjamanni sem er veikur á geði inn í hús sitt.
En frá því að stjórnarandstöðuflokki Suu Kyi var meinað að taka við völdunum eftir kosningasigur árið 1990 hefur herforingjastjórnin haft á henni góðar gætur.
Taldi maðurinn sig hafa verið að ganga erinda Guðs en hann fékk að gista í húsi stjórnarandstöðuleiðtogans.
Then Sein er hæst setti fulltrúi herforingjastjórnarinnar sem sækir allsherjarþingið í 14 ár, en í ræðu sinni í gær ræddi hann um nauðsyn þess að eiga í samstarfi við aðrar þjóðir til að lágmarka áhrif fjármálahrunsins á efnahag Búrma.
Jafnframt gagnrýndi hann efnahagsþvinganir en Bandaríkjastjórn hefur einmitt beint þeim gegn herforingjastjórninni.
Slíkar þvinganir ættu sér ekki neina siðferðislega stoð, enda hindruðu þær efnahagslega og félagslega þróun samfélaga.
Bandaríkjastjórn hyggst hins vegar ekki láta af þeim fyrr en herforingjastjórnin hefur komið á umbótum í mannréttindamálum.