Allt kapp er lagt á að torgin í kínverska bænum Nanjie líti sem best út fyrir fimmtudaginn en kínverska alþýðulýðveldið fagnar þá 60 ára afmæli. Maó formaður og Karl Marx eru í hávegum hafðir enda hagkerfi bæjarins í anda kommúnismans. Bærinn hefur umsjón með iðnaði og notast íbúarnir við matarmiða.
Landbúnaður og framleiðsla er að sjálfsögðu í höndum kommúnar bæjarins, ásamt því sem húsin eru hverju öðru lík til að tryggja tilfinningu fyrir fullkomnum jöfnuði.
Öllum er tryggð félagsþjónusta sem Reuters-fréttastofan segir öfundarefni í þessu fjölmennasta ríki heims.
Hinn 67 ára gamli Liu Gaimin, íbúi bæjarins, sem er í Henan-héraði, kveðst í fyrstu ekki hafa trúað því að fyrirheit um kommúnu yrðu að veruleika í upphafi 9. áratugarins, þegar landið tók þveröfuga efnahagsstefnu.
Loforðin hafi hins vegar ræst með samhentu átaki bæjarbúa og lífsgæðin aukist jafnt og þétt, ár frá ári.
Kommúnan er í anda Maóismans en það stílbrot á hugmyndafræðinni er látið óátalið að fyrirtæki, á borð við núðlu- og bjórverksmiðju, greiða bænum skatta sem síðan er notaður í þágu fólksins.
Þá sækir um hálf milljón manna bæinn heim árlega en margir eru sagðir fyllast fortíðarþrá - aðrir líklega skelfingu - þegar þeir sjá hversu hátt gömlu hugmyndafræðinni er gert undir höfði.