Þakkaði Brown fyrir að bjarga Icesave

Gordon Brown flytur ræðu sína í Brighton í dag.
Gordon Brown flytur ræðu sína í Brighton í dag. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, minntist á Icesave reikninga Landsbankans í aðalræðu sinni á ársþingi breska Verkamannaflokksins í Brighton í dag. Sagðist Brown hafa fengið bréf frá konu, sem þakkaði honum fyrir að bjarga eigendum Icesave-reikninga. Þá sagði Brown, að breskur almenningur þyrfti ekki að greiða fyrir mistök bankanna.

Brown sagði, að gjaldþrota hugmyndafræði hefði leitt til fjármálakreppunnar sl. haust, sú hugmyndafræði hægrimanna, að markaðurinn sjái alltaf um að leiðrétta stefnuna.

„Dag einn í október kom stjórnandi stórs banka og sagði okkur að bankinn þyrfti aðeins fjármögnun yfir nótt en engan langtíma stuðning frá stjórnvöldum. Daginn eftir komst ég að því, að bankinn var að fara á höfuðið og skuldir hans voru einhverjar þær mestu, sem einn banki hefur safnað í sögunni. Bankamenn höfðu misst sjónar á breskum grundvallargildum, að hegða sér með ábyrgjum og réttlátum hætti. Gildunum, sem við, meirihluti landsmanna, fylgjum daglega. 

Eins og kaupsýslumaðurinn, sem kom á minn fund þegar hann gat ekki lengur fengið lánsfé. Hann grét af skömm yfir að hafa ekki getað staðið í skilum með allar skuldbindingar sínar en hann var svo ábyrgur að hann sagðist myndu greiða hvert penny. Eða konan, sem skrifaði mér og sagði, að þegar við tilkynntum ákvörðun okkar um að bjarga Icesave og sparifé heimilisins þá hefði hún loks náð að sofa eftir svefnlausar nætur frá því kreppan hófst," sagði Brown. 

Almenningur á ekki að borga fyrir bankana

Þá sagði Brown í ræðu sinni, að sumir telji að almenningur þurfi að borga fyrir mistökin sem bankamenn gerðu. „Ég segi ykkur þetta um markmið okkur við björgun bankanna: breskur almenningur á ekki að borga fyrir bankana. Nei, bankarnir eiga að borga breskum almenningi til baka," sagði Brown. 

Ræða Gordons Browns í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert