Tigros-verslunarkeðjan á Ítalíu býður nú happdrættisvinning sem hæfir kreppunni en verðlaunin eru atvinna í eitt ár. Tigros verslanirnar eru 50 talsins og hefur ein verslananna í Varese ákveðið að taka atvinnuleysið í eigin hendur. Þeir sem eyða í það minnsta 30 evrum í búðinni geta unnið eitt þeirra 10 starfa sem eru í pottinum.
Verðlaunahafarnir verða dregnir úr pottinum í október. Þó svo verðlaunahafarnir reynist þegar hafa vinnu geta þeir útnefnt einhvern annan í sinn stað.
Atvinnuleysi á Ítalíu er nú það hæsta síðan árið 2005 en það mældist 7,4% á öðrum ársfjórðungi þessa árs.