Að minnsta kosti 85 eru látnir á Samóaeyjum og á þriðja tug manna á Bandarísku Samóa er saknað í kjölfar flóðbylgjunnar í Kyrrahafi í gærkvöldi í kjölfar öflugs jarðskjálfta. Að sögn yfirvalda eru að minnsta kosti 145 manns slasaðir og heilu þorpunum virðist hafa skolað í burtu. Þúsundir eru heimilislausar.
Byggingar hrundu þegar jarðskjálfti, sem mældist 8 stig á Richter, reið yfir og þúsundir eyjarskeggja flúðu frá strandhéröðum upp í fjallshlíðar. Í kjölfarið reið yfir flóðbylgja, sem að sögn sjónarvotta var þriggja til níu metra há og jafnaði heilu þorpin við jörðu.
Að minnsta kosti 20 létu lífið á Bandarísku Samóa, þar sem um 65 þúsund manns búa. Þá létu að minnsta kosti 65 lífið á Samóa, þar sem um 180 þúsund manns búa. Óstaðfestar fréttir hafa einnig borist af manntjóni á eyjunni Tonga, sem er ekki langt frá.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði að um væri að ræða meiriháttar náttúruhamfarir og Tuilaepa Sailele Malielegaoi, forsætisráðherra Samóa, sagði að þetta væri gríðarlegt áfall.
„Það hefur svo margt glatast, svo margt fólk látið lífið. Ég er afar sorgmæddur vegna alls þessa," sagði hann við áströlsku fréttastofuna AAP.
Misa Telefoni, aðstoðarforsætisráðherra, sagði að íbúar hefðu fengið afar lítinn tíma til að forða sér undan flóðbylgjunni, sem skall á eyjunum um 20 mínútum eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Gríðarlegt tjón hefði orðið á ferðamannastöðum og öðrum þéttbýlisstöðum við ströndina.
Apia, höfuðborg Samóa, var rýmd eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuviðvaranir í kjölfarið. Þúsundir íbúa flýttu sér að komast á hærri staði innar á eyjunni.
Fjöldi eftirskjálfta hefur orðið á svæðinu eftir stóra skjálftann, sem reið yfir í gærkvöldi. Flestir eftirskjálftanna hafa verið um og yfir 5 stig á Richter.