Obama leggur sín lóð á vogarskálarnar

Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, vinnur nú að því að fá fulltrúa Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) til að samþykkja að halda sumarólympíuleikana árið 2016 í Chicago. Fram kemur á fréttavef Reuters að Obama muni nýta tímann í forsetavélinni á morgun og hringja í fulltrúana er hann flýgur til Danmerkur.

Obama mun leggja í hann frá Washington á morgun og mun undirbúa kynningu fyrir nefndina að sögn Robert Gibbs, talsmanns Hvíta hússins. Hann segir að Obama muni liðsinna Chicago með því að leggja sín lóð á vogarskálarnar. En nefndin mun taka ákvörðun um málið á morgun.

Hvíta húsið greindi frá því fyrr í þessari viku að Obama myndi fljúga til Kaupmannahafnar til að styðja umsókn Chicago, og vona skipuleggjendur þar í borg að ferðin verði til góðs. Hörð samkeppni er um ólympíuleikana.

Obama mun taka þátt í kynningu Chicago í fyrramálið, en þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna ávarpar fund Alþjóðaólympíunefndarinnar.

Hann mun hins vegar staldra stutt við í Danmörku, því hann er væntanlegur aftur til Washington síðdegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert