Varnarmálaráðherra Danmerkur, Søren Gade, hótaði að segja af sér í dag eftir að yfirmaður í danska hernum þýddi umdeilda danska bók, sem fjallar um danska herinn í Afganistan, á arabísku. Hann segist ekki bera traust til yfirmanna hersins.
Danski herinn hefur farið fram á að bókin verði bönnuð, því hún geti skaðað öryggi hermanna í landinu. Danskur hermaður, sem tilheyrði sérsveit danskra hermanna í Afganistan, skrifar bókina.
Dómstóll í Danmörku hefur neitað að verða við kröfu hersins þar sem þegar sé búið að birta hluta úr bókinni á netinu og danskt dagblað hafi birt bókina í heild sinni.
Nú hefur komið í ljós að yfirmaður hjá tæknideild hersins hafi sent danska dagblaðinu Berlingske Tidende bókina í arabískri þýðingu, og sett textann á netið. Gade segir þetta hafa verið hnífstungu í bakið, en hermanninum hefur verið vikið úr starfi.
Gade sagði við blaðamenn að hann treysti ekki lengur æðstu yfirmönnum hersins. Hann átti fund með utanríkismálanefnd danska þingsins um málið.