Fundarmenn á ársþingi Alþjóðaólympíunefndarinnar í Kaupmannahöfn völdu borgina Rio de Janiero í Brasilíu til að halda ólympíuleikana árið 2016. Kosið var á milli Ríó og Madridar á Spáni en áður höfðu Chicago og Tókýó fallið úr leik.
Jacques Rogge, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, opnaði umslag með nafni borgarinnar, sem fékk flest atkvæði í síðustu atkvæðagreiðslu fundarmanna. Nafn Ríó kom upp úr umslagi sem Rogge opnaði og innihélt nafn borgarinnar sem varð fyrir valinu.
Mikil gleði braust út í Brasilíu þegar niðurstaðan varð ljós en áður höfðu þúsundir manna safnast saman á Copacabana ströndinni í Ríó og dansaði þar við sambatónlist og veifaði fánum. Búist er við gríðarlegum mannfjölda á ströndinni í kvöld en þar verður gleðskapur fram eftir nóttu.
Margir íbúar í Ríó vonast til þess, að lífsgæði í borginni muni batna umtalsvert þegar borgaryfirvöld búa sig undir að halda leikana.
Luiz Inácio Lula da Silva, forseti Brasilíu, og Sergio Cabral, ríkisstjóri Ríó, voru í Bella Center í Kaupmannahöfn þegar niðurstaðan var kynnt og voru þeir báðir greinilega mjög hrærðir.