ESB fært um að hlusta á fólkið

Fánar Írlands og Evrópusambandsins við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel …
Fánar Írlands og Evrópusambandsins við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í dag. Reuters

Forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso óskaði Írum í dag til hamingju og þakkaði þeim fyrir að samþykkja Lissabon sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í gær. Áður hafa Írar hafnað sáttmálanum einu sinni, í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það var á síðasta ári.

„Þetta er stórkostlegur dagur fyrir Írland, þetta er stórkostlegur dagur fyrir Evrópu,“ sagði Barroso við blaðamenn eftir að ljóst varð að fylgjendur Lissabon sáttmálans höfðu haft betur. „Ég vil þakka írsku þjóðinni fyrir þessa traustsyfirlýsingu,“ bætti Barroso við, en hann var staddur í höfuðstöðvum Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

Hann sagðist vona að ekki tæki langan tíma úr þessu að staðfesta sáttmálann í Tékklandi og Póllandi, einum tveimur ESB ríkjunum sem enn eiga eftir að samþykkja.

Stefnubreyting írsku kjósendanna sagði Barroso sýna að Evrópusambandið sé tilbúið til að hlusta á efasemdir almennings. Írar fengu tryggingar fyrir því, eftir að þeir höfnuðu sáttmálanum í fyrra, að hann myndi ekki hafa áhrif á lykilmálaflokka eins og hernaðarlegt hlutleysi landsins eða löggjöf þess um fóstureyðingar og skatta.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert