Sterkan dollara og sveigjanlegt júan

Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna, þegar þeir hittust í Washington í október …
Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna, þegar þeir hittust í Washington í október árið 2008. YURI GRIPAS

Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna, sjö mestu efnahagsvelda heims, vöruðu í dag við óstöðugleika á gjaldeyrismörkuðum og lögðu áherslu á að dollarinn þyrfti að vera sterkur og kínverska júan-ið að vera sveigjanlegt til þess að jafnvægi kæmist á í hagkerfi heimsins.

„Við höfum staðfest þörfina á því að kinverski gjaldmiðillinn styrkist ... og við trúum því áfram að þörf sé á sterkum dollara,“ sagði fjármálaráðherra Frakklands, Christine Lagarde, eftir viðræður í Istanbul í dag. Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer þar fram eftir helgina.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segja fjármálaráðherrarnir líka að það sjáist merki um bata í alþjóðahagkerfinu en að ekkert rúm væri fyrir andvaraleysi í þeim efnum. Örvandi aðgerðir í fjármálum ríkja ættu að halda áfram.

„Of miklar sveiflur og róstusamar hreyfingar í gengi gjaldmiðla hafa slæm áhrif fyrir efnahagslegan og fjárhagslegan stöðugleika,“ segir í yfirlýsingunni. Þar sagði að hærra gengi júansins myndi hjálpa til við að stuðla að hagvexti í Kína sem væri hóflegur, og sömuleiðis í heimshagkerfinu.

Merki um bata hafa haft áhrif til lækkunar á gengi bandaríkjadals, þar sem að venjulega forða menn sér í dollarann þegar ástandið er slæmt, en selja svo aftur dollarana í auknum mæli þegar ástandið fer að batna.

Kallað hefur verið á það að undanförnu að kínversk stjórnvöld, sem stjórna gengi júansins algerlega. leyfi því að styrkjast. Með því yrðu útflutningsvörur frá kína dýrari.

Á sama tíma er talað um að stjórnvöld í Washington séu að leyfa dollarnum að veikjast mikið til þess að styðja við bandarískar útflutningsgreinar, með því að gera vörur þeirra ódýrari. Sú aðferð myndi veikja samkeppnisstöðu útflutningsgreina í Evrópu.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner hefur reynt að slá á þessar áhyggjur að undanförnum, með því að segja að sterkur dollari sé mjög mikilvægur fyrir efnahag Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert