Fréttaskýrendur í Bandaríkjunum fóru margir nánast af hjörunum vegna ósigurs Chicago borgar, og forsetans Baracks Obama, í gær, þegar Chigaco datt út í fyrstu umferð í valinu um ólympíuborgina 2016. Í helgarútgáfu New York Times er gerð grein fyrir helstu umsögnum um ósigurinn og þar er áherslan mun frekar á persónu forsetans, heldur en verðleika Chigaco borgar. Óhætt er að segja að margir Bandaríkjamenn túlki allar gerðir Obama niður í minnstu smáatriði.
Rick Moran, dálkahöfundur Pajamas Media sagði að Obama hefði lagt eigin heiður og forsetaembættisins að veði og mistekist. ,,Hann veðjaði með það eina sem forsetinn ætti aldrei að veðja með, nema mun meira sé að veði en svo, að heimaborgin hans fái Ólympíuleikana eða ekki."
Annar dálkahöfundur, Jennifer Rubin, sagði að Obama hefði ekki ráðið við egóið í sér og þess vegna hefði hann eytt svona mikilli orku í að reyna að fá ólympíuleikana. Það væri sama egóið og það sem ímyndaði sér að mikil en innihaldslaus ræðuhöld sem höfðuðu ekki til neins utan hans harðasta stuðningsmannakjarna, gætu umbylt heilbrigðismálum í Bandaríkjunum. Þá vantaði hann sárlega ráðgjafa til að stöðva hann af og hindra hann í því að verða sér til skammar.
Höfundur NY Times, Tobin Harshaw, segir þessi viðhorf ekki einskorðast við hægrisleggjur eins og Moran og Rubin. Hann vitnar til kennara við Harvard Business School, sem segir að forsetinn hefði ekki átt að taka þessa áhættu og sóa trúverðugleika sínum þegar hann þurfi á sigrum að halda heima við, í þinginu, í heilbrigðismálum. ,,Hann þurfti að líta út eins og sigurvegari. En nú er hann persónulega tengdur við það að tapa."
Aðrir minna hins vegar á að hægrisinnaðir Bandaríkjamenn fangi því ekki oft þegar Bandaríkin tapa fyrir löndum á borð við Spán eða Brasilíu. En þegar Chicago hafi dottið út í fyrstu umferð, í kosningunni um ólympíuborgina 2016, þá hafi íhaldsmennirnir opnað kampavínsflöskurnar.
Höfundar á borð við John J. Miller hjá Review og Jonah Goldberg hjá Corner hafi spurt sig hvort Obama eigi einhvern möguleika á því að vinna með Írönum, ef hann geti ekki einu sinni heillað Ólympíunefndina
Harshaw bendir á að a.m.k. einn repúblikani sé að biðja skoðanabræður sína um að fagna ekki ósigri Bandaríkjanna vegna andúðar sinnar á Obama. Scott Stanzel, fjölmiðlafulltrúi seinni kosningaherferðar George W. Bush, skrifaði á Twitter blogg sitt í gær: ,,Áminning til ráðgjafa í repúblikanaflokknum. Standist þá freistingu að fjargviðrast yfir tapi Chigaco, bara af því að Obama studdi umsóknina."
Ekki einblína þó allir pistlahöfundar á Obama. Chris Bowers hjá Open Left tilgreinir margar ástæður fyrir því að Bandaríkin ættu ekki að fá að halda ólympíuleika í langan, langan tíma. Þau ráðist ólöglega inn í önnur lönd, samþykki ekki Kyoto bókunina, pynti fólk og vinni í raun á engan hátt með heiminum í flestum málum. Ólympíuleikarnir gangi hins vegar einmitt út á samvinnu og frið.
Enn aðrir segjast orðnir dauðþreyttir á því allt þurfi að snúast um Obama. Jay Cost skrifar á bloggið RealClearPolitics að það sem hefði átt að vera frétt um Chigaco, eða réttara sagt Rio de Janeiro, hefði orðið frétt um Obama. ,,Auðvitað, vegna þess að nánast allt verður, verður að breytast í frétt um Obama. Því Obama þrýstir sjálfum sér og flokksvél sinni, hugarfari og heimssýn, inn í allt. Og það sem hefði annars aðeins átt að vera höfnun á Chicago og Daley borgarstjóra, er nú orðið höfnun á öllum Bandaríkjunum. Af hverju? Vegna ákvörðunar Obama um að vera alltaf í herferð, allan tímann á meðan hann ræður yfir framkvæmdarvaldinu.“
Harshaw, pistlahöfundur NY Times slær svo út með því að niðurstaðan sé vissulega vonbrigði fyrir forsetann. Hins vegar hljóti það að vera vonbrigði fyrir andstæðinga hans að hann hafi getað farið út úr landinu án þess að valdarán hafi verið framið meðan.
Umfjöllunina sjálfa má sjá hér.