Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA), hefur tilkynnt að kjarnorkueftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum muni fara til Íran 25 október og heimsækja kjarnorkurannsóknarstöð í Íran, þar sem verið er að auðga úran. Þetta tilkynnti ElBaradei eftir fund með Ali Akbar Salehi, yfirmann kjarnorkumála í Íran. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC.
Íranir neita því að þeir séu að reyna að búa til kjarnorkuvopn í stöðinni, sem einungis komst upp um fyrir skömmu síðan. Fyrirhuguð heimsókn ElBaradeis til Íran er nú tilkynnt, eftir að New York Times vitnaði í innanhússskýrslu frá IAEA, um að Íran gæti haft getu til þess að búa til nothæfa kjarnorkusprengju.
Skýrslan, sem var trúnaðarmál, hefur einnig lekið að hluta til á netið og verið birt á vef Institute for Science and International Security (ISIS). Í henna er tekið fram að niðurstöður hennar séu ekki að fullu byggðar á staðfestum gögnum.
,,Stofnunin metur það svo að Íran hafi fullnægjandi upplýsingar til að geta hannað og framleitt nothæfa kjarnorkusprengju, sem byggist á mikið auðguðu úrani sem sprengiefni,” er vitnað í skýrsluna. Í New York Times kom fram að þetta gengi mun lengra en opinber afstaða Bandaríkjastjórnar gagnvart getu Írana í þessum málum. El Baradei hefur hins vegar viljað draga úr trúverðugleika skýrslunnar.
„Íranir hafa kynnt sér auðgunartækni. Íranir hafa tækni og rannsóknaraðstöðu og munu koma sér upp kjarnorkuveri. En enn er spurningum ósvarað um fyrirætlanir Írana og þess vegna mun eftirlitið halda áfram,” sagði El Baradei á blaðamannafundi með Ali Akbar Salehi.
Mohamed El Baradei er nú í Teheran og fer þaðan á morgun. Hann mun hitta Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins, en engin heimsókn í kjarnorkustöð er ráðgerð í þessari heimsókn.