James Jones, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, segir ólíklegt að talibanar muni komast aftur til valda í Afganistan. Þá segir hann að verulega hafi dregið úr starfsemi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda í landinu.
„Góðu fréttirnar eru þær að Bandaríkjamenn ættu að minnsta kosti að vera ánægðir með það að verulega hefur dregið úr veru al-Qaeda í Afganistan,“ sagði Jones í viðtali á CNN-fréttastöðinni.
„Næstu skref eru griðastaðirnir við landamærin,“ segir Jones og vísar til Pakistan. „Ég get hins vegar ekki séð að talibanar snúi aftur til valda og ég vil að það komi skýrt fram að það er ekki yfirvofandi hætta á því að Afganistan falli.“
Átta bandarískir hermenn féllu í átökum þegar uppreisnarmenn réðust á tvær útvarðarstöðvar hersins á afskekktu svæði í austurhluta Afganistans. Þetta eru mannskæðustu átök bandarískra hermanna í Afganistan í rúmt ár. Herinn greindi frá þessu í dag.
Obama Bandaríkjaforseti íhugar nú hvort hann eigi að fjölga í herliði Bandaríkjanna í Afganistan eða beita öðrum aðferðum.