Tóbaksfyrirtækið Philip Morris International ætlar að stefna írskum stjórnvöldum fyrir að banna að tóbaksvörur verði sýnilegar í söluturnum og verslunum. Bandarískt tóbaksfyrirtæki höfðaði á sínum tíma svipað mál gegn íslenska ríkinu vegna íslenskra tóbaksvarnarlaga.
Fram kemur í breskum fjölmiðlum að Philip Morris kunni einnig að höfða samskonar mál gegn breskum stjórnvöldum ef áform um að fjarlægja tóbak úr sýnilegum hillum verslana ganga eftir í Bretlandi.
Ný írsk tóbaksvarnarlög tóku gildi 1. júlí og samkvæmt þeim er bannað að hafa tóbak sýnilegt í verslunum. Philip Morris telur lögin brjóta gegn samkeppnisreglum og segir, að ef tóbaksvörur séu ekki sýnilegar séu reykingamenn líklegri en ella til að kaupa aðeins þá tegund sem þeir þekkja.
Hæstiréttur Íslands féllst árið 2006 ekki á þá kröfu tóbaksfyrirtækja um að heimilt væri að hafa tóbak eða vörumerki tóbaks frá þeim sýnileg viðskiptavinum á útsölustöðum, þrátt fyrir ákvæði tóbaksvarnalaganna. Sagði rétturinn að löggjafanum væri heimilt að setja skorður við því að heilsuspillandi vörur á borð við tóbak væru í augsýn annarra viðskiptavina en þeirra, sem vildu kaupa þær.
Hæstiréttur féllst hins vegar á kröfu erlendra tóbaksfyrirtækja og íslensks forsvarsmanns tóbaksverslunar, að heimilt sé að hafa hafa tóbaksvörur frá félögunum sýnilegar viðskiptavinum í versluninni á þeim forsendum að um sé að ræða sérverslun fyrir tóbaksvörur.